Smíðagripir eru stólar/barstólar hannaðir og smíðaðir af myndlistamanninum Daníeli Magnússyni.
Daníel hóf að smíða þessa fallegu stóla fyrir um 23 árum síðan en stólarnir hafa notið töluverðra vinsælda síðustu árin. Stólana hans má meðal annars finna á 101 bar, Listasafni Reykjavíkur og á nýja vínbarnum í flugstöðinni okkar íslendinga... og svo má líka finna þá í eldhúsinu hjá mér ;)
Smíðagripir eins og Daníel kýs að kalla stólana sína eru einkar þæginlegir en þeir eru allir á fjórum fótum og með snúanlegri sessu. Þeir eru ekki valtir og verða ekki grút skítugir neðst á fótum eins og svo margir barstólar verða.
Daníel smíðaði fyrir mig fjóra stóla fyrir um ári síðan og ég get ekki sagt annað en þjónustan hafi alveg verið skemmtilega einstök. Við hjúin fengum að koma við á verkstæðinu hjá honum og hann útskýrði fyrir okkur hvernig allt saman virkar í stólnum (snúnings skífan og fleira) og við völdum hvernig fætur við vildum og hvaða viðartegund við vildum. Síðan fórum við í GÁ húsgögn og völdum okkur leður á sessuna og svo þremur vikum seinna voru tilbúnir fjórir handsmíðaðir fallegir stólar, merktir okkur hjúum undir og framleiðslunúmer á hverjum og einum.
Mína stóla má skoða á síðustu tveimur myndunum hér fyrir neðan.
Smíðagripir eru nú til sýnis á Hönnunarmars en þá má finna í Kirsuberjatrénu á Vesturgötunni
Hér fyrir neðan má svo sjá opnunartíma sýningarinnar í Kirsuberjatrénu um helgina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli