divider

divider

Á ferð minni um landið



Veitt í Þingvallavatni


Síðustu vikuna hef ég verið að þvælast um landið hingað og þangað með vinum og börnum. Ekki leiðinlegt. 
Við byrjuðum ferðina á Þingvöllum þar sem þjóðgarðurinn var skoðaður í risa göngutúr þar sem allir voru ansi þreyttir þegar heim var komið. Þar var líka farið að veiða. Þingvallavatn er prýðis staður til þess að leyfa börnunum að veiða. Öllum fannst rosalega gaman þrátt fyrir að einungis veiddust tveir tittir. 
Því næst var haldið á Fossatún. Þangað er ekki leiðinlegt að fara... sérstaklega ekki með börn. Það eru tröllskessur út um allt. Þar er gott kaffi og með'ðí  fyrir mömmur og pabba og þar má finna rosalega fínan leikvöll sem börnin geta alveg gleymt sér í. Og það sem best er að leikvöllurinn er alveg við tjaldstæðið þannig að hægt er að fylgjast vel með villingunum frá tjaldstólnum sínum ;) 

Að lokum héldum við á Hvammstanga sem er ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa ferðasögu niður fyrir ykkur. Ég mæli sérstaklega með því að fólk leggi leið sína þangað. Þar er mjög fínt tjaldstæði með öllum græjum...reyndar svolítið fyrir ofan bæinn. En bærinn er fallegur og margt þar að finna. Ég hreyfst sérstaklega af kaffihúsinu litla krúttlega niðri við bryggju sem heitir Kaffi Hlaðan. Þar var hægt að fá gott kaffi og æðislegar kökur og vöfflurnar voru himneskar (verst ég var ekki með símann á mér til að taka myndir fyrir ykkur af þessum gómsætu veitingum). 
Svo var ég ansi skotin í lítilli handverksbúð sem heitir Gallerý Bardúsa. Þar mátti finna margt fallegt frá handverksfólkinu í sveitinni. En fyrir innan Gallerýið var að finna eldgamla búð og allann gamla lagerinn sem þar var til. Þar var margt fallegt að finna og þá sérstaklega heillaðist ég af gúmmí-dúkkunum sem hafa beðið ansi lengi eftir að vera keyptar. 
Við hliðná Gallerýinu er svo að finna nytjamarkað sem gaman er að róta í. 
Og svo að lokum verð ég að segja ykkur frá ullarverksmiðjunni sem gaman er að heimsækja. Þar er búð með fullt af fallegum vörum og svo mega gestir og gangandi skoða verksmiðjuna sem ekki er leiðinlegt. 


Grýla komin með óþekk "börn" í pottinn sinn í Fossatúni.

Tröllkall sem hefur orðið að steini.

Gallerý Bardúsa á Hvammstanga

Gúmmí dúkkurnar fögru


Nóg til í gömlu búðinni

Húfa frá ullarverksmiðjunni sem gaman er að heimsækja. 


1 ummæli:

  1. Skemmtileg færsla, væri mikið til í að kíja í gömlu búðina!

    SvaraEyða