divider

divider

Árið 2013

Gleðilegt nýtt ár elsku þið!
Það er kominn tími á blogg á þessu nýja ári. Árið 2014 lofar góðu og ég horfi björtum augum á komandi tíma. En það er alltaf voða gaman að byrja árið á að líta yfir farinn veg í myndum. Það hefur verið venjan hjá mér að gera þetta, nema á síðasta ári, þá sleppti ég því sökum tímaleysis. Þetta tekur langann tíma, en er ótrúlega skemmtilegt.
Skoðum...

Í janúar fór ég á ótrúlega skemmtilega handverkssýningu þar sem litið er yfir farinn veg Sigrúnar Níelsdóttur. Við mæðgur bjuggum til snjólistaverk á einn vegg á húsinu okkar. Ég kynnti ykkur fyrir fallegu fötunum sem hægt er (var?) að kaupa í búðinni Beroma. Og svo auðvitað létum við okkur dreyma um sumarið í fallegum sumarhúsum. 

Í Febrúar var hinn skemmtilegi öskudagur þar sem börn landsins eru uppá sitt besta. Lítill frændi minn föndraði Lego kalla búning með pabba sínum og dætur mínar voru Lísa í Undralandi og Mína mús. Við elskum þennan dag og krúttlegheitin sem fylgja honum. Við skoðuðum nokkur falleg barnaherbergi ásamt því að skoða nýja skenkinn sem ég keypti í stofuna mína. 

Í Mars var HönnunarMarsinn haldinn og bar því til mikilla tíðinda í íslenskri hönnun. Ég lét mig auðvitað ekki vanta á sýningar borgarinnar. Ég eignaðist Eames ruggustól. Við fermdum Kristófer fósturson minn og skoðuðum mikið af fallegu páskaskrauti sem hægt er að gera heima. 

Í Apríl tók ég ljósmyndakúrs í skólanum, lærði að kenna eitthvað með því að sýna eingöngu myndir. Ákvað að kenna kökupinnagerð. Ég fjallaði um eina af uppáhalds listakonum mínum hana Aðalheiði Eysteinsdóttir. Mig dreymir um verk eftir hana. Ég lét mig líka dreyma um Moth ljós og púðana frá Markrún. Bloggið fékk líka umfjöllun í S&H undir fyrirsögninni "Áhugaverð íslensk blogg". 

Það gerðist ekki mikið í Maí. Ég fór jú á útskriftasýningu LHÍ í Listasafni Reykjavíkur þar sem mikið var um dýrðir. Órórar voru skoðaðir og einhver DIY verkefni. 


Júní var auðvitað bara allur um sumar, sól og LITI. Veggfóðrin frá Mr. Perswall voru skoðuð. Mjög falleg veggfóður framleidd hjá þeim. Náttuglur heilluðu okkur mjög, enda fallegar vörur sem framleiddar eru undir merkinu...og við elskum jú óróa. Postulín eftir Camila Prada. Skemmtilegar vörur með húmor og svo var farin skemmtileg mæðgnaferð í höfuðborgina þar sem endurnar voru heimsóttar niður á tjörn. 



Júlí var tími ferðalaga, brúðkaups og námskeiðs í Salt Eldhús. Makkarónunámskeiðið er eitt af nokkrum hlutum sem gerðust á árinu sem stendur uppúr. Frábær námskeið haldin hjá Salt og stefnan er tekin á eitt gott námskeið þetta árið líka. Ferðast var í Hrútafjörðin og gömul kjörbúð skoðuð með fullt af eldgömlu dóti, þ.a.m. litlar gúmmí dúkkur í körfu. Ég hálpaði vinkonu að undirbúa ljósmyndavegg fyrir brúðkaupið hennar. Beta keypti sér þennan fallega Songbird eftir Kay Bojersen ásamt því að kynna fyrir okkur sniðug viskastykki sem hægt er að sauma fígúrur úr þegar hætt er að nota þau. 



Ágúst var heldur leiðinlegur mánuður...veturinn skall of fljótt á og mánuðurinn var frekar kaldur. En þá ákvað Beta að stofna business, sauma taubleyjur fyrir litla bossa. Regnbogarassar fæddust. Ég þvældist bara um á flóamarkaði og lét mig dreyma um fallega hluti úr búðum. 



September var skemmtilegur mánuður því þá skrapp ég til París. En á blogginu skoðaði ég fallegt barnaherbergi, skoðaði hvað hægt er að gera úr vörubrettum og kynnti til leiks hana Unni Jónsdóttir og fallegu myndirnar sem hún er að gera undir merkinu UJónsdóttir. 

Október var bleikur út í gegn... Bleika slaufan og Brjóstapúðinn sem leit dagsins ljós við góðar undirtektir. Falleg vara sem ég hef því miður ekki enn náð að eignast. Besla kynnti fallega jólakjóla fyrir litlar skvísur. Ég eignaðist mynd eftir UJónsdóttir og svo bloggaði ég um skemmtilega veitingastaðinn MissKo sem er staðsettur í París. 

Nóvember var svolítið jólalegur. Ég skoðaði fullt af möguleikum hvað varðar pakkadagatöl. Eva Laufey gaf út uppskriftabókina sína sem ég auðvitað keypti mér. Eldskúlptúr, gjörningur á Ægissíðu var framin eftir mikla undirbúningsvinnu. Eldurinn breyttist í fallegt listaverk og ég fann minn innri brennuvarg þarna í nokkrar mínútur. Aðventukransar voru skoðaðir og ég gerði einn sem var mjög svipaður þeim sem ég gerði í fyrra. Og svo gerði ég þessi skemmtilegu jólatré og var með DIY færslu um þau. 


Desember var rosalega skemmtilegur eins og alltaf. Ég átti afmæli. Datt svo í lukkupottinn í Góða Hirðinum og fann Sóley, stóll sem er íslensk hönnun og nokkuð eftirsóknaverður í dag. Ég gerði pakkadagatal fyrir dætur mínar (ekki svo viss um að ég geri slíkt aftur...) Það kom umfjöllun um bloggið í Lífinu, fylgiriti fréttablaðsins og svo var dundað við að pakka inn jólagjöfunum. Engin saumavél dregin fram í þetta sinn þó. 


Dásamlegt ár að baki og ég vil bara þakka ykkur elskurnar mínar fyrir að lesa. Ég ætla að reyna að vera ennþá duglegri á nýju ári. Það eru einhverjar breytingar á bloggi í kortunum fyrir nýja árið, hvenær sem það gerist. En það verður bara breyting til betra :) 

Megi árið verða ykkur heillaríkt og færa ykkur endalausa hamingju. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli