divider

divider

Ein ég sit og sauma

Það er komið u.þ.b. ár og öld síðan ég setti inn færslu síðast. Ég ætla að draga mig út úr samviskubitinu og smella inn nokkrum myndum af handavinnunni minni.

Ég tók upp á því að endurnýja kynni mín við saumavélina í haust. Komin einhver ár síðan ég kom við tvinna og títuprjóna.

Ég byrjaði á því að sauma þessa tvo púða, þetta eiga að vera uglur. Ég náði góðri upprifjun á saumatöktunum. Þær eru mjúkar þrátt fyrir að vera örlítil illfygli.

  Næst fór ég í að hanna, sníða og sauma hann Stjaka. Hann fer í jólapakka og flytur svo fljótlega til Noregs.
Hann er með mælaborð sem er með nokkrum tökkum og mælistiku, því hann er augljóslega vélmenni. Svo er hann með leynihólf að aftan. Mér þykir hann óttalega lúðalega sætur :)



Eftir Stjaka, þá fæddist Skafti. Hann er krútt-skrímsli með skögultennur og tvo loðna dindla. Hugmyndina af andlitsgerðinni fékk ég á Pinterest. Svo er hann auðvitað með vasa að aftan. Hann fer í jólapakka og fer bráðlega líka að tala norsku.


Síðasta verkefni mitt voru svo þessi tvö, Bíbi & Blaka
Bíbí er fíngerð ugla, með tvo litla vasa undir vængjunum og hjarta á bakinu, hugmyndina af henni fékk ég frá Etsy. Blaka er skrímsla-prinsessa með blómakórónu og blúnduleynihólf að aftan. Svo eru þær báðar með handsaumuð blik í augum, manni fer fram í hugmyndagleðinni sjáðu til.

Það er ótrúlega gaman að dunda sér við svona, ennþá skemmtilegra að horfa á loka útkomuna eftir alla vinnuna og blótið.

Beta kveður í bili

1 ummæli:

  1. Af hverju eru þessir ekki komnir í framleiðslu? Ekkert smá flott!

    SvaraEyða